Kattarþvottur íhaldsins

Skýrsludrög endurreisnarnefndar Sjálfstæðisflokksins hefur þegar kallað fram ýfingar um að hve miklu leyti hún tali fyrir flokksmenn. Formaðurinn hefur varpað rýrð á skýrsluna og líklega er hún að nokkru leyti vopn í innanflokksátökum um skipan nýrrar forystu á komandi landsfundi.

Á hinn bóginn er hún ekki síður tilraun til að hvítþvo flokkinn svo þjóðin meigi sætta sig við hann áfram og takmarka fylgishrun flokksins. Þarna er tekið undir gagnrýnisraddir sem hljómað hafa í allan vetur og potað í ýmis kaun forystunnar, jafnvel koma fram efasemdir um réttmæti stuðnings við Íraksstríðið þó seint sé og skipun Davíðs í Seðlabankann.

Fátt bendir þó til að hugur fylgi máli enda er hvergi hvikað í því sem skiptir höfuðmáli. Því er haldið fram að stefna flokksins hafi verið rétt og jafnvel haldið fram að óumdeilt hafi verið að rétt hafi verið að einkavæða bankana. Hins vegar hafi fólk brugðist og þá virðist vísað til ýmissa auðmanna og ekki þá síst þeirra sem ráku bankana.

En hvers konar stefna er það sem treystir á að þeir sem raka að sér auðæfum á kostnað almennings séu hvítskúraðir englar með óbugandi siðferðisþrek? Reynslan sýnir einmitt að auðæfin leita yfirleytt ekki upp þannig fólk. Stefna Sjálfstæðisflokksins miðar að því að auka misskiptinguna í samfélaginu og undanfarna ártugi hefur gróðafíknin krafist stórfelldrar eignatilfærslu frá almenningi til einstakra auðmanna. Og þegar þeir náðu tangarhaldi á öllum bönkum landsins jókst árangur auðmannanna á þessu. Þeir soguðu til sín allt sem fyrir varð. Réttinn til auðlinda þjóðarinnar, lífeyrissjóði og annað sparifé landsmanna, og loks vinnuframlag þjóðarinnar langt inn í framtíðina.

Allt er þetta bein afleiðing af því að fjármálaauðvaldið hafði frjálsar hendur og stjórnaði nánast beint fyrir tilstilli stefnu Sjálfstæðisflokksins og einkavæðing bankanna greiddi því leiðina. Þessi skýrsludrög eru því fölsk tilraun til að breiða yfir óhæfuverk Sjálfstæðisflokksins og endurreisa traust á flokknum sem hann verðskuldar ekki.

Þorvaldur Þorvaldsson


Athugasemdir

1 Smámynd: Indriði H. Indriðason

Ég vil vekja athygli á vefsíðu, www.profkjor.politicaldata.org, sem er nýstofnsett. Tilgangur vefsíðunnar er að skapa vettvang þar sem kjósendur geta nálgast upplýsingar um frambjóðendur og stefnumál þeirra auk annarra upplýsinga tengdum prófkjörunum/forvölunum. Vefsíðan er opin frambjóðendum allra flokka í öllum kjördæmum en það er undir frambjóðendunum sjálfum komið að færa inn upplýsingar um sig og stefnumál sín. Ef frambjóðendur kjósa eru færslur af þeirra eigin bloggum birtar sjálfkrafa á vefsíðunni. Það gefur t.d. kjósendum möguleika á að skoða bloggfærslur allra frambjóðenda flokksins í tilteknu kjördæmi – og jafnvel takmarkað við tiltekið sæti á listanum – á einum stað. Það er von okkar að vefsíðan efli pólitíska umræðu og gefi kjósendum aukið færi á að taka málefnalega afstöðu.

Frambjóðendur geta skráð sig hér: http://www.profkjor.politicaldata.org/wp-login.php?action=register

Indriði H. Indriðason, 3.3.2009 kl. 02:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband